Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þorrablót 6. bekkja

26.01.2024
Þorrablót 6. bekkja

Löng hefð er fyrir því að halda þorrablót í 6. bekk.  Engin undatekning var gerð á því í ár og fimmtudaginn 24. janúar var blásið til þessarar stórveislu enn á ný. Þorrablótið byrjaði með frekar fámennum nemenda- og starfsmannahópi og hefur náð að lifa af og vaxa í takt við fjölgun í skólanum. Í dag er þorrablótið með stærri viðburðum sem haldnir eru í grunnskóla og tvinnast þar saman nokkuð margir þættir skólastarfs. Nemendur ásamt starfsfólki skólans vinna hörðum höndum að undirbúningi í nokkurn tíma og nær sá undirbúningur hámarki á þorrablótsdeginum þegar þorramaturinn kemur í hús og nemendur undir stjórn heimilisfræðikennara skera og koma matnum í trog. Þá þarf að skreyta salinn og leggja lokahönd á skemmtidagskrána og bursta rykið af dansskónum.

Nemendur leggja mikið á sig við sköpun og æfingar. Útbúa þarf metnaðarfulla skemmtidagskrá sem inniheldur fjölbreytt atriði, fræðslu og fleira. Skipa þarf öllum nemendum í hlutverk hvort sem það er á sviði, myndbandagerð, tæknimennsku eða öðru sem þarf að sinna þegar halda á stóra veislu. Umsjónarkennarar vinna þétt saman með íþróttakennurum, list- og verkgreinakennurum og öðru starfsfólki til að allir njóti kvöldsins sem best og að samvera barnanna og foreldra þeirra verði ánægjuleg.

Sumir nemendur eru að gera eitthvað alveg nýtt og kynnast sjálfum sér í nýju verkefni. Samvera barna og foreldra fær hér nýja hlið með svona viðburði, borðhaldi og dansleik. Það er ánægjulegt, eftir blóð, svita og tár, að sjá glaðbeitta og hreykna nemendur stíga danssporin og kenna foreldrum sínum bæði gamla og nýja dansa sem þau hafa lært í undangegnum íþróttatímum. 

Við erum afar stolt af þessum viðburði hérna í skólanum og þakklát öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg. 

Hægt er að sjá myndir frá þorrablótinu á myndasíðu 6. bekkja


Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband