Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólasetning

24.08.2021
Skólasetning

Hofsstaðaskóli var settur í dag í 44. sinn. Nemendur eru 535 í 27 bekkjardeildum. Starfsmenn eru um 90. Nemendur komu og hittu umsjónarkennara sína, fengu stundaskrár og skoðuðu stofur. Þeim til mikillar gleði er búið að mála nýja pókóvelli á skólalóðina og glænýtt slönguspil hefur verið sett niður.  Foreldrafélagið gaf nemendum og skólanum slönguspilið sem er gert úr sérstöku plastefni sem er fest niður í malbikið. Við gleðjumst einnig yfir því að búið er að gera við skemmdir á norðurhlið skólans og mála. Skólinn hefur verið þrifinn vel, gólf bónuð og lítur allt vel út.

Nemendur í 1. bekk eru 52. Þeir hafa verið í sumarfrístund í Regnboganum í síðustu viku og þekkja orðið skólann sinn og leikvellina ágætlega. Við bjóðum þá sem og aðra nýja nemendur sérstaklega velkomna í skólann.

Kennarar hafa unnið að því að skipuleggja og undirbúa nám nemenda og verða kennsluáætlanir í öllum námsgreinum birtar á vef skólans á næstunni. Haustfundir verða rafrænir og ýmislegt kynningarefni sent út áður til foreldra og birt hér á vefnum.

Foreldrar hafa ekki fengið að koma inn í skólann í langan tíma og hafa því miður ekki getað hist, séð bekkjarfélaga barna sinna  eða haldið bekkjarkvöld. Það er heilmikil áskorun að finna leiðir til þess að ná hópnum saman og brýnt að fá bekkjarfulltrúa úr öllum hópum. Einnig vantar fólk í stjórn foreldrafélagsins. Þeir sem hafa áhuga á að vera virkir í foreldrastarfinu og leggja skólanum lið eru beðnir um að gefa sig fram við skólastjóra.

Starfsfólk og stjórnendur óskar nemendum og fjölskyldum þeirra velfarnaðar í vetur og hlakkar til samstarfsins.

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband