Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólastarf haustið 2023

13.09.2023
Skólastarf haustið 2023Skólastarf í Hofsstaðaskóla fer vel af stað þetta haustið þrátt fyrir raskanir vegna umfangsmikilla framkvæmda. Nú er unnið að því að dúkleggja síðustu kennslustofurnar og að því loknu geta allir flutt inn í sínar bekkjarstofur.
Nemendur eru 518 í 27 bekkjardeildum. Starfsmenn eru 90. Enn vantar starfsfólk í frístundaheimilið Regnbogann og því hefur ekki verið hægt að taka við öllum börnum þar. Börn í 1. og 2. bekk eru í forgangi ásamt þeim börnum úr 3. og 4. bekk sem skráð voru fyrir 15. júní sl.
Á vef skólans www.hofsstadaskoli.is er að finna margvíslegar upplýsingar um skólastarfið. Skólareglur og reglur um símanotkun nemenda er gott að kynna sér og ræða við börnin ykkar. Margir nemendur koma á reiðhjólum í skólann sem er frábært. Mikilvægt er að allir fari vel með hjólin. Við ítrekum að börnin fari yfir hjólið sitt áður en þau leggja af stað, kanni hvort allt sé fast og bremsur virki. Því miður þá kemur það upp öðru hvoru að fiktað er í hjólum sem er grafalvarlegt og skapar slysahættu.
Í vetur taka allir kennara þátt í þróunarverkefni um leiðsagnarnám þar sem m.a. er áhersla á að virkja nemendur og gefa þeim leiðbeinandi endurmat. Allnokkrir umsjónarkennara taka þátt í þróunarverkefni í vetur þar sem foreldrasamtölin eru nemendastýrð sem er mjög spennandi og verður kynnt á haustfundum með foreldrum þar sem það á við. Önnur þróunarverkefni eru um vendikennslu, verkefni í töflureiknum, tæknilausnir í sérkennslu og frímínútnafjör.
Kennarar vinna með Uppeldi til ábyrgðar og Verkfærakistu KVAN í að skapa jákvæðan skólabrag og efla góð samskipti. Árleg forvarnavika í Garðabæ 4. – 11. október mun leggja áherslu á samskipti. Henni tengt var vel sóttur fræðslufundur fyrir foreldra í 1. og 2. bekk þar sem Vanda Sigurgeirsdóttir frá KVAN fjallaði um samstarf heimila og skóla. Nemendur í 3. og 6. bekk fá fræðslu frá Samtökunum 78 annað árið í röð. Nemendur í 7. bekk vinna náttúrufræðiverkefni við Vífilsstaðavatn í byrjun október og fara svo í skólabúðir í Vatnaskógi 13. til 16. nóvember. 9. – 10. nóvember verða HS leikar sem eru uppbrotsdagar þar sem hefðbundin stundatafla er lögð til hliðar og nemendur sinn fjölbreyttum verkefnum í litlum hópum. Raðað er í hópana þvert á árganga.
Haustfundir með foreldrum og umsjónarkennurum eru á dagskrá 14. til 26. september og er þess vænst að a.m.k. einn komi frá hverju barni á fundinn. Á fundinum verða valdir bekkjarfulltrúar og eru foreldrar hvattir til þess að bjóða sig fram og taka þátt í starfi foreldrafélagsins. Margar hendur vinna létt verk og því er mikilvægt að fá sem flesta til þátttöku og verkefnin raðist á fleiri hendur en færri. Stjórn foreldrafélagsins fundar í þessari viku og skipuleggur starfið í vetur ásamt því að tilnefna fulltrúa í Skólaráð og Grunnstoðir, samtök foreldrafélaganna í Garðabæ.
Kennsla fellur niður mánudaginn 25. september en þá er skipulagsdagur í leik- og grunnskólum bæjarins. Nemenda og foreldrasamtöl verða fimmtudaginn 26. október og þá fellur kennsla niður. Daginn eftir 27. október er engin kennsla og frístundaheimilið er lokað. Sá dagur er s.k. Menntadagur í Garðabæ og sinna starfsmenn frístundaheimila leik- og grunnskóla endurmenntun. Haustönn lýkur svo á jólaskemmtun miðvikudaginn 20. desember. Sá dagur er skertur skóladagur og nemendur mæta hluta úr degi. Við hvetjum foreldra til þess að skrá þessa daga hjá sér og gera viðeigandi ráðstafanir ef þörf krefur.
Starfsfólk skólans og stjórnendur hlakka til samstarfsins við foreldra og nemendur.
Stjórnendur
Til baka
English
Hafðu samband