Fræðsla um andlega og líkamlega heilsu fyrir 7. bekk
Miðvikudaginn 23. október komu til okkar Einar Örn Guðmundsson sjúkraþjálfari og Margrét Lára Viðarsdóttir íþrótta- og sálfræðingur hjá Sjálfsaga og fræddu 7. bekkinga um rétta líkamsstöðu, svefn, orkudrykki, sjálfsstjórn, jákvætt sjálfstal og félagsleg tengsl.
Í fyrirlestrinum fór Einar Örn yfir mikilvægi hreyfingar og réttrar líkamsbeitingar þegar kemur að líkamlegri heilsu barna og unglinga. Einnig fór hann yfir áhrif orkudrykkjaneyslu á svefn og hversu skaðleg neysla á þessum drykkjum getur verið. Margrét Lára fór yfir nokkra þætti sem nemendur geta nýtt sér til að auka andlegt heilbrigði sitt. Hvernig nemendur geta byggt upp sjálfsmynd sína og verið þar með betur undirbúin til að takast á við streitu, mótlæti eða erfiðleika. Hún kom einnig inn á mikilvægi svefns og nefndi aðferðir til að auka svefngæði.
Nemendur voru afar áhugasamir um fræðsluna og duglegir að spyrja og tengja við sitt líf. Kennarar halda áfram umræðunni með sínum bekk en hægt er að skoða heimasíðu Sjálfsaga inn á https://www.sjalfsagi.is/