Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólaheimsóknir

24.03.2009
Skólaheimsóknir

Senn líður að því að 7. bekkur þarf að yfirgefa Hofsstaðaskóla. Í vikunni hafa nemendur því verið í heimsóknum í Garðaskóla og Sjálandsskóla til að kynna sér starfsemina þar svo auðveldara reynist að velja hvorn skólann þau vilja sækja í 8. bekk. Flestir nemendur eru að skipta um skóla í fyrsta sinn og finnst þetta eðlilega nokkuð spennandi en einnig svolítið kvíðvænlegt.

Á mánudag var farið í Sjálandsskóla og tók Helgi skólastjóri á móti hópnum og fræddi þau aðeins um hvernig skólastarfið væri hjá þeim. Einnig ræddu nokkrir nemendur í 8. bekk við hópinn og sögðu frá helstu kostum skólans. Nemendur fengu jafnframt tækifæri til að spyrja um ýmislegt sem þeim var hugleikið.

Miðvikudag og fimmtudag var svo litið við í Garðaskóla. Þar var hópnum skipt í tvennt og ræddi Helga deildarstjóri og Ragnar skólastjóri við annan hópinn um skólastarfið meðan fulltrúar nemenda ræddu við hinn og síðan var víxlað. Nemendur spurðu um ýmislegt sem er þeim efst í huga t.d. skólareglur  og val í bekki.

Á næstu vikum þurfa nemendur að skrá sig í þann skóla sem verður fyrir valinu. Jafnframt gefst þeim kostur á að velja sér vin til að vera með í bekk ef þau sækja Garðaskóla en í Sjálandsskóla er 8. bekkur einn hópur.

Til baka
English
Hafðu samband