Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Battavöllurinn vígður

14.09.2008
Battavöllurinn vígður

Battavöllurinn við Hofsstaðaskóla var vígður við hátíðlega athöfn í síðustu kennslustund föstudaginn 12. september. Páll Hilmarsson formaður skólanefndar og Ragnhildur Inga Guðjónsdóttir formaður íþrótta- og tómstundaráðs vígðu völlinn formlega með því að klippa á borða - íslenska fánann. Fyrirtækið Metathron sem sá um gervigrasið gaf skólanum fimm fótbolta sem formenn nefndanna, Patrekur Jóhannesson íþrótta- og tómstundafulltrúi og Margrét Harðardóttir skólastjóri spörkuðu inn á völlinn. Að ávörpum loknum sungu nemendur, starfsmenn og aðrir gestir Öxar við ána. Að því búnu tók stóra stundin við. Nemendur í 6. og 7. bekk kepptu við starfsmenn í fótbolta. Bæði nemendur og starfsmenn lögðu allt sitt í leikinn enda mikið keppnisfólk á ferðinni. En betra liðið sigraði að sjálfsögðu- leiknum lau með 2-1 sigri nemenda. Nemendur voru að vonum kátir enda sigurinn verðskuldaður.

Við hér í skólanum erum himinlifandi með völlinn og erum þess fullviss að þessi viðbót við skólalóðina eigi eftir að auka hreyfingu og útivist nemenda og þar með heilbrigt líferni.

Nemendur til hamingju með sigurinn og að sjálfsögðu sendum við hlýjar kveðjur til þeirra sem stóðu að framkvæmdinni.

Til baka
English
Hafðu samband