Nýyrðakeppni
Annalísa Hermannsdóttir nemandi í 6. L.K. hlaut viðurkenningu fyrir tillögu sína í nýyrðasamkeppni fyrir 5. – 7. bekk grunnskóla sem hleypt var af stokkunum á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sl. Að keppninni stóðu Íslensk málnefnd, Námsgagnastofnun, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Skýrslutæknifélag Íslands.
Markmið samkeppninnar var að vekja athygli á því að unnt er að nota íslensk orð þar sem oft eru notuð erlend orð eða slettur. Aðstandendur keppninnar telja að það markmið hafi náðst.
Alls bárust úrlausnir frá 1763 nemendum í keppnina frá 82 skólum. Ákveðið var að veita 8 viðurkenningar. Í fyrstu verðlaun var myndavél og bók en hinir 7 fengu bók.
Margar góðar tillögur komu fram, en fæstar þóttu mjög frumlegar. Eftir nokkra umhugsun var ákveðið að veita 1. verðlaun fyrir tillögu um orðið skjóla fyrir buff. Orðið skjóla er að vísu haft um ‚fötu‘ en í orðinu felst að það geti verið haft um eitthvað sem ‚veitir skjól‘ og þetta fat gerir það svo sannarlega. Annað orð fyrir buff, strokkur, sem kom ríflega 26 sinnum fyrir, er einnig notað um ílát til þess að strokka í rjóma.
Þessir nemendur hlutu viðurkenningar:
Gréta María Halldórsdóttir 5. bekk í Varmahlíðarskóla (1. verðlaun)
Sigfinnur Andri Marinósson 5. bekk í Varmahlíðarskóla
Halldór Kári Kristmundsson 5. X í Kópavogsskóla
Halla Hauksdóttir 6-G í Hvassaleitisskóla
Annalísa Hermannsdóttir 6. LK í Hofsstaðaskóla
María Lilja Harðardóttir 7-AE í Ártúnsskóla
Guðrún Eiríksdóttir 7-AE í Ártúnsskóla
Victoría Kristín Geirsdóttir 7. bekk í Patreksskóla (Grunnskóla Vesturbyggðar)
Hér fyrir neðan má sjá orðalistann. Flest þessara orða hafa verið notuð áður en ekki víst að nemendum hafi verið kunnugt um þau. Undantekningin er hins vegar orðin Skjóla fyrir buff og dvergspilari fyrir mp3 en aðeins einn nemandi nefndi hvort orð.
Orðanefndin vill vekja sérstaka athygli á eftirfarandi orðum:
Mixer | blandari |
Buff | skjóla, hárstrokkur, höfuðstrokkur |
Mp3 | lófaspilari, dvergspilari |
Trampolin | fjaðurdúkur, stökkdúkur, hoppa |
leggings | leggjabuxur, leggjur |
boost | orkuþeytingur, þeytingur, orkuskot |
Margrét skólastjóri afhenti Önnu Lísu formlega viðurkenningu sína í skólanum þann 23. janúar.