Græna bylgjan gróðursetning í Smalaholti
21.05.2010
Tveir nemendur úr umhverfisnefnd Hofsstaðaskóla, þau Agnes og Kári gróðursettu tré í Smalaholti föstudaginn 21. maí ásamt börnum úr grunnskólum Garðabæjar. Í tilefni árs líffræðilegs fjölbreytileika ákváðu Umhverfisráðuneytið, Skógræktarfélag Íslands og Yrkjusjóður – sjóður æskunnar til ræktunar landsins, að efna til viðburða undir hatti þessa verkefnis hér á landi, í fyrsta skipti. Fulltrúum frá öllum skólum á höfuðborgarsvæðinu var boðið að koma saman í sínu sveitarfélagi og setja niður trjáplöntur föstudaginn 21. maí, í tilefni þessa dags. Græna bylgjan (Green Wave) er alþjóðlegt verkefni sem Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika stendur fyrir í tengslum við dag líffræðilegs fjölbreytileika 22. maí. Þann dag, eða næsta virka dag við 22. maí, sem í ár er föstudagurinn 21. maí, gróðursetja skólar um víða veröld tré, til að vekja athygli á hugtakinu líffræðilegur fjölbreytileiki og leyfa skólabörnum að hafa áhrif, eitt tré, eitt skref í einu.