Sinfóníutónleikar
Nemendum í 6. bekk var boðið á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói í sl. viku. Verkið sem flutt var heitir Töfraflautan og er eftir Mozart. Sögumaður á tónleikunum var Halldóra Geirharðsdóttir leikkona en hún sagði söguna á lifandi og skemmtilegan hátt. Nemendur höfðu áður fengið að kynnast verkinu í tónmenntatíma og þekktu þeir því helstu aríurnar. Nemendur skrifuðu um ferðina í skólanum og kom fram í greinum þeirra að þeim fannst söngur Næturdrottningarinnar skemmtilegastur. Næstu daga á eftir heyrðust oft á göngum skólans stef úr söng hennar og kannski hefur laglínan líka hljómað heima við.
Í tengslum við tónleikana efnir Sinfóníuhljómsveitin til samkeppni þar sem ungum hlustendum gefst tækifæri á að vera „tónlistargagnrýnendur“ í einn dag. Þeir sem vilja geta sent inn umsögn sína um tónleikana og fá til þess leiðbeiningar í skólanum.