Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skóli á grænni grein

05.02.2011
Skóli á grænni grein

Hofsstaðaskóli tók, fimmtudaginn 3. febrúar, við Grænfánanum öðru sinni. Skólinn hefur tekið þátt í verkefninu Skóli á grænni grein frá árinu 2005 og fékk afhentan Grænfánann í fyrsta sinn 16. nóvember 2007 á 30 ára afmæli skólans.

Allir nemendur komu saman á sal ásamt starfsmönnum og góðum gestum og var athöfnin skipulögð af nemendum í umhverfisnefndinni. Nýstofnaður kór Hofsstaðaskóla söng, nemendur léku á hljóðfæri og fluttu frumsamin ljóð um náttúruna. Að lokinni myndasýningu þar sem sýnd voru fjölmörg verkefni sem nemendur vinna í tengslum við umhverfisstefnu skólans afhenti Orri Páll Jóhannsson fulltrúum úr umhverfisnefndinni Grænfánann. Hann hvatti nemendur til frekari dáða á þessum vettvangi og ítrekaði það að allir verða að hjálpast að og standa vörð um umhverfið og náttúruna.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Hofsstaðaskóli er einn af 200 skólum á Íslandi sem er skóli á grænni grein.

Markmið verkefnisins er að:
• Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
• Efla samfélagskennd innan skólans.
• Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
• Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
• Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
• Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
• Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.

Myndir frá athöfinni er að finna á myndasíðu skólans

Til baka
English
Hafðu samband