Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vinnumorgun í Húsdýragarðinum

05.04.2011
Vinnumorgun í Húsdýragarðinum

Það voru hressir krakkar úr 6. bekk sem voru mættir á bílaplan Hofsstaðaskóla í síðustu viku kl. 7:30. Ferðinni var heitið í Húsdýragarðinn en þar tóku nemendur þátt í vinnumorgni.
Nemendum var skipt í hópa og sá einn hópurinn um hirðingu á nautgripum og svínum, annar hópur um hesta og kindur og þriðji hópurinn sá um hreindýr, refi og minka. Gleði og áhugi skein af hverju andliti og gaman að takast á við eitthvað alveg nýtt. Nemendur fengu fræðslu um dýrin og á stuttum tíma voru allir orðnir sérfræðingar í sinni grein. Eftir að hafa fengið sér nesti að borða, vöfflur og heitt kakó, miðluðu þau svo þekkingu sinni til hinna og héldu flotta fyrirlestra.
Sú skemmtilega hefð hefur skapast að skólinn bjóði nemendum 6. bekkja upp á þessa fræðslu, en foreldrar sáu um að aka nemendum á staðinn. Við tókum svo strætó heim, angandi af góðri sveitalykt. Líklegt er að allir hafi sofnað þreyttir en sælir eftir daginn.

Myndir úr heimsókninni í Húsdýragarðinn eru á myndasíðum bekkjanna.

Til baka
English
Hafðu samband