Íva Marín sigrar í ritgerðarsamkeppni um frið
Íva Marín í 7. Ó.P. sigraði í ritgerðarsamkeppni Lions um frið. Keppnin er alþjóðleg og er ætluð blindum og sjónskertum ungmennum á aldrinum 11-13 ára. Markmiðið með keppninni er að hvetja ungmenni til að hugsa um frið, sjá heiminn í stærra samhengi og að leggja sitt af mörkum í friðarumræðunni. Þema keppninnar er “Kraftur friðarins”
Hér má nálgast ritgerð Ívu Marínar á íslensku og ensku
Við verðlaunaafhendingu í Lionsheimilinu í Reykjavík voru tvö önnur börn einnig heiðruð og þeim þakkað fyrir þeirra ritgerðir, en það eru þau Ólafur Einar Ólafsson og Sandra Sif Gunnarsdóttir. Meðfylgjandi mynd er af Ívu Marín í athöfn sem haldin var í Hofsstaðaskóla í tilefni af viðurkenningunni.
Alþjóðasamband Lionsklúbba stendur fyrir keppninni um allan heim, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar – UNESCO, og er hún þáttur í friðaruppeldi barna og unglinga. Íslenska vinningsritgerðin hennar Ívu Marínar hefur verið þýdd á ensku og send í alþjóðlegu keppnina, en úrslit hennar verða kynnt í lok júní. Lionshreyfingin starfar í 206 þjóðlöndum með 1,4 milljónir félagsmanna. Ísland er einn hlekkur í þessari stóru keðju með 2.400 Lionsfélaga í 90 klúbbum um allt land.
Samkeppni um gerð friðarveggspjalds hefur verið haldin árlega í rúm 20 ár. 11–13 ára ungmennum er gefinn kostur á að tjá sig í myndlist og túlka sínar hugmyndir um frið, friðarboðskap og framtíðarsýn, í litum, línum og formum. Um fjórar milljónir ungmenna í yfir 100 löndum hafa tekið þátt í þessari samkeppni Lions. Nú er blindum og sjónskertum ungmennum gefið tækifæri til að taka þátt í friðarumræðunni með ritgerð.
Til hamingju með þennan frábæra árangur Íva Marín.
Íva Marín tekur við viðurkenningunni í Hofsstaðaskóla