Ytra mat á starfi Hofsstaðaskóla
Hofsstaðaskóli tók skólaárið 2011-2012 þátt í verkefni um ytra mat á grunnskólastarfi. Matið er hluti af tilraunaverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Matið var framkvæmt af Hönnu Hjartardóttur og Rannveigu Lund en það fór fram á vettvangi 1.-15. mars, en áður hafði farið fram gagnaöflun og undirbúningur.
Teknir voru fyrir fjórir matsþættir, þarf af voru þrír fyrirfram ákveðnir en sá fjórði ákveðinn af skóladeild Garðabæjar og Hofsstaðaskóla. Þættirnir sem lagt var mat á voru stjórnun, nám og kennsla, innra mat og sérfræðiþjónusta.
Styrkleikar: Skipulag og umgjörð skólastarfs er mjög gott. Skólabragur einkennist af jákvæðni, virðingu og trausti milli allra aðila. Sterk hefð er fyrir listgreinum og nýsköpun er til fyrirmyndar. Sérfræðiþjónusta er með ágætum.
Veikleikar: Gera þarf ferla um mat og endurgjöf á fagmennsku kennara.
Ögranir: Í svo sterku skólasamfélagi er ögrandi að viðhalda þeim árangri sem þegar hefur náðst og halda áfram sterku starfi í nýsköpunar og þróunarverkefnum.
Tækifærin felast m.a. í því að auka beina aðkomu foreldra og nemenda að ákvörðunum og efla möguleika nemenda til að nýta sér upplýsingatækni m.a. með auknu aðgengi.
Starfsfólk skólans er mjög ánægt með niðurstöður matsins og telja þær vera hvatningu til að viðhalda því góða starfi sem unnið er í skólanum. Unnin verður umbótaáætlun í samræmi við fyrirmæli frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Starfsfólki skólans eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf og mikla fagmennsku.
Skólaheimsóknin sjálf stóð yfir í 4 daga. Heimsóttar voru 20 kennslustundir hjá jafn mörgum kennurum og í fjölbreyttum námsgreinum svo sem stærðfræði, íslensku, samfélagsfræði, náttúrufræði, nýsköpun, smíði, íþróttum, tónlist og sérkennslu. Haldnir voru rýnifundir með kennurum, öðrum starfsmönnum skóla, stjórnendum nemendum í tveimur hópum þ.e. annars vegar nemendum í 1.-4. bekk og hins vegar 5.-7. bekk, foreldrum fulltrúa í skólaráði og sérfræðiteymi skólans. Þá var tekið einstaklingsviðtal við skólastjórann. Sérstakur rýnihópur var myndaður um sérfræðiþjónustuna. Einnig var haft einstaklingsviðtal við deildarstjóra sérkennslu.
Hér má nálgast matsskýrsluna