Sigraði í forritunarkeppni
28.08.2012
Nemendur Skema fengu tækifæri til að taka þátt í forritunarkeppni á vegum FBI í Bandaríkjunum vorið 2012. Ólína Helga Sverrisdóttir sem er 11 ára nemandi hér í Hofsstaðaskóla, tók þátt í keppninni og sigraði! Ólína byrjaði að forrita af kappi fyrir um ári síðan en mamma hennar Rakel Sölvadóttir á og rekur sprotafyrirtækið Skema sem heldur meðal annars námskeið í forritun fyrir börn og þar gegnir Ólína því hlutverki að vera aðstoðarkennari. Ólína sendi inn myndband þar sem hún lýsti leik sem hún var að búa til og sigraði í keppninni. Leikurinn er byggður upp eins og umferðarfræðsla, en snýst um hvernig maður á að haga sér á Netinu; maður verður að líta til beggja hliða, hugsa áður en maður framkvæmir og alls ekki gefa upp notendanafn eða leyniorð á síður eins og Facebook.
Í vetur fá nemendur í 5. bekk Hofsstaðaskóla forritunarkennslu. Kennslan mun fara fram í tölvustofu skólans á skólatíma og verður hún í höndum Skema en starfið hjá Skema gengur út að að móta aðferðafræði til að kenna ungum börnum að forrita. Háskólinn í Reykjavík hefur sett hlutafé í fyrirtækið, sem og CCP, sem sendir starfsmenn í heimsókn á námskeið Skemu og styður fyrirtækið fjárhagslega. Samhliða kennslunni mun fara fram rannsókn á áhrifum forritunarkennslu á færni nemenda í íslensku, ensku og stærðfræði. Foreldrar nemenda í 5. bekk munu fá upplýsingar og samþykktarbeiðni vegna rannsóknarinnar áður en kennslulotan hefst.