Grænfáninn afhentur Hofsstaðaskóla í þriðja sinn
14.10.2013
Hofsstaðaskóli fékk Grænfánann afhentan í þriðja sinn 10. október s.l. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning fyrir umhverfisstarf og stefnu í umhverfismálum.
Fulltrúi Landverndar afhenti nemendum í umhverfisnefnd skólans fánann að viðstöddum nemendum í 5. bekk og öðrum góðum gestum. Afhendingin fór fram á útikennslusvæði leik- og grunnskóla við Bæjarbraut. Við athöfnina söng kór Hofsstaðaskóla þrjú lög undir stjórn Unnar Þorgeirsdóttur, þrír nemendur fluttu frumsamin ljóð um haustið og Ágústa Líndal spilaði á horn. Að athöfn lokinni var gestunum boðið uppá heitt kakó og kleinur.
Grænfáninn er viðurkenningin sem veitt er þeim skólum sem taka þátt í verkefninu Skólar á grænni grein (Eco-Schools) sem Landvernd stýrir með stuðningi frá stjórnvöldum. Þátttökuskólar þurfa að hafa stigið sjö skilgreind skref í umhverfismálum til að geta sótt um Grænfánann sem er alla jafna veittur til tveggja ára í senn. Sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Nemendur og starfsmenn Hofsstaðaskóla eru afar stoltir af fánanum sínum og því mikilvæga starfi sem hann stendur fyrir.
Sjá myndir frá afhendingunni á myndasíðu skólans