Dagur gegn einelti – 8. nóvember
13.11.2013
Föstudagurinn 8. nóvember var helgaður baráttunni gegn einelti, í Hofsstaðaskóla eins og í öðrum grunnskólum á Íslandi. Í Hofsstaðaskóla minntumst við dagsins með ýmsum hætti. Kennarar ræddu um forvarnir gegn einelti, unnin voru verkefni, haldnir bekkjafundir og farið í leiki sem tengdust málefninu. Þá voru sýnd stutt myndbönd, m.a. um rafrænt einelti, í samveru á sal á eldra stigi. Þessa dagana heldur námsráðgjafi einnig stutt námskeið í forvarnarskyni, um samskipti og lausnir á samskiptavanda í kynjaskiptum hópum í 3.-7. bekk.
Eineltisteymi grunnskóla Garðabæjar er nú að hefja samstarf við Stjörnuna, íþróttafélag bæjarins til að tryggja sameiginlegar áherslur í eineltismálum, í skóla og félagslífi barnanna. Eineltisteymið hefur að undanförnu unnið að endurskoðun sameiginlegrar eineltisstefnu og mun hún birtast á heimasíðum bæjarins og skólanna innan skamms.
Bendum að lokum á nýja og athyglisverða rannsókn á rafrænu einelti sem samtökin Heimili og skóli og SAFT létu gera og er aðgengileg á heimasíðum þeirra.Baráttunni gegn einelti lýkur aldrei. Hún er eilífðarverkefni sem við verðum öll að standa saman um. Öðruvísi ber hún ekki árangur.
Með bestu kveðju,
eineltisteymi Hofsstaðaskóla