Halloweenball
14.11.2013

Halloweenball (Hrekkjavöku dansleikur) 7. bekkja Hofsstaðaskóla var haldið miðvikudagskvöldið 6. nóvember s.l. Ballið tókst í alla staði frábærlega vel og skemmtu allir sér konunglega. Diskótekið Dísa sá um að halda uppi fjöri og var frábær stemming á ballinu.
Hugmyndin að þessari hátíð er fengin úr enskukennslu skólans en þar eru kynntar helstu hátíðir í enskumælandi löndum. Krakkarnir sáu sjálfir um að útbúa skreytingar og var salurinn, alrýmið og inngangurinn skreyttur með allskyns ófreskjum og draugalegum myndum.Ákveðið var að bjóða 7. bekkjum úr öðrum skólum í Garðabæ á ballið og hrista þannig saman hópinn sem hittist í Garðaskóla næsta vetur. Hópurinn náði mjög vel saman og dönsuðu og trölluðu þannig að ómögulegt hefði verið fyrir ókunnugan að sjá hver var úr hvaða skóla. Margir höfðu greinilega lagt mikla vinnu í búninga sem voru mjög flottir og fjölbreyttir eins og sjá má í myndasafninu.