Ást gegn hatri-Er þörf á nýrri hugsun í eineltismálum?
26.01.2014
Fimmtudaginn 23. janúar kom góður gestur í heimsókn í 5., 6. og 7. bekk. Það var Selma Hermannsdóttir nemandi við FG. Selma hefur orðið fyrir einelti frá unga aldri vegna skarðs í vör. Hún sagði krökkunum sögu sína og svaraði spurningum þeirra á eftir. Selma lýsti m.a. eineltinu en lagði þó mesta áherslu á það viðhorf sem hún hefur verið alin upp í gagnvart gerendunum. Faðir hennar; Hermann Jónsson, hefur alltaf lagt áherslu á við hana að hún hafi sjálf val um það hvernig hún bregst við því sem hún mætir. Það að mæta hatri með ást og að koma vel fram við alla, jafnvel þá sem koma illa fram við hana. Skemmst er frá að segja að þessi sterka og hugrakka stúlka snerti strengi í hjörtum allra, jafnt nemenda sem starfsmanna. Hún er góð fyrirmynd og flytur frábæran boðskap. Krakkarnir voru líka duglegir að spyrja og fengu skýr svör.Um kvöldið var svo fræðslufundur fyrir foreldra. Hermann Jónsson sagði frá reynslu sinni sem faðir barns sem lent hefur í einelti. Hermann hefur lagt áherslu á að byggja dóttur sína, Selmu Björk upp og gera hana að sterkum einstaklingi sem hefur svo sannarlega skilað sér. Hermann fór yfir leiðir sem hann nýtti sér í uppeldinu og hvernig þau feðgin tóku á vandamálinu í sameiningu, með því að hann var alltaf til staðar fyrir hana.
Viðhorf þeirra beggja er að mæta hatri með ást og finna til með þeim sem leggja í einelti.
SAFT-fræðsla.
Hafþór Birgisson fjallaði um netheima og netnotkun barna og ungmenna í kjölfar reynslusögu Hermanns. Hafþór ræddi m.a. um Internetið, sem er frábær upplýsingaveita og tæki til samskipta en þar felast einnig ýmsar hættur sem mikilvægt er fyrir foreldra að þekkja og gera sér grein fyrir. Hann lagði áherslu á að til að foreldrar geti talað við börnin sín og leiðbeint þeim um öryggi og góða hegðun þurfa þeir að þekkja það umhverfi sem þeir eru í dags daglega. Hann benti á ýmsar gagnlegar leiðir fyrir foreldra til að stýra netnotkun barna sinna.
Þriðjudaginn 28. Febrúar verður Hafþór með fyrirlestur um netnotkun fyrir nemendur í 4. bekk Hofsstaðaskóla.Skoða myndir frá fræðslu Selmu, Hermanns og Hafþórs