Glæsileg, fjörug, frumleg og skemmtileg árshátíð
Árshátíð nemenda í 7. bekk skólans fór fram miðvikudagskvöldið 25. mars. Hefð er fyrir því að nemendur fái að velja þema og að þessu sinni varð Grease fyrir valinu sem þema árshátíðarinar. Nemendur sjá sjálfir um að búa til skreytingar og skreyta salinn fyrir kvöldið og útbúa matinn. Þetta gera þeir undir dyggri leiðsögn list- og verkgreinakennara. Nemendur sjá jafnframt um skemmtiatriðin en sá siður hefur skapast að slá upp hæfileikakeppni þar sem þeim sem áhuga hafa býðst að láta ljós sitt skína. Í ár voru atriðin fjölbreytt og skemmtileg og fóru æfingar fram á göngum skólans í frímínútum, í salnum og hvar sem því var við komið fram að árshátíð. Elmar, Ingvi og Jónas voru tæknimenn og sáu þeir um að aðstoða keppendur í tengslum við tónlist, lýsingu og útfærslu á atriðinum. Eyþór og Patrik voru sviðsmenn og sáu þeir um að allt gengi snurðulaust fyrir sig á sviðinu. Heiðursgestir kvöldsins voru foreldrar nemenda sem fengu að njóta glæsilegra skemmtiatriða.
Dómnefnd kvöldsins skipuðu: Deildarstjóri yngri deildar, foreldri úr skólanum og tveir fyrrverandi nemendur skólans. Þeir áttu úr vöndu að ráða því allir skemmtikraftar kvöldsins stóðu sig afburða vel og atriðin þátttakendum til mikils sóma.
Veittar voru viðurkenningar fyrir nokkur atriði. Skemmtilegasta atriðið var myndband sem þeir Arnór, Dagur, Eysteinn, Logi og Týr Fáfnir gerðu. Myndbandið gerðu þeir í ensku. Verkefnið var að semja handrit og velja nokkra lagabúta og skeyta þeim inn í söguþráðinn svokallað "Songs in real life" myndband. Myndbandið þeirra heitir Adelt og má nálgast það hér
Ólafur og Róbert fengu viðurkenningu fyrir frumlegasta atriðið. Þeir sungu og röppuðu lagið Maístjarnan. Ólýsanlega skemmtileg og frumleg framkoma þar sem Róbert fór upp i hæstu hæðir í söngnum og Ólafur raddaði með.
Rebekka Líf söng lagið Russian Roulette af mikilli innlifun og hlaut viðurkenningu fyrir glæsilegasta atriðið.
Danshópurinn Whatever hlaut viðurkenningu fyrir fjörugasta atriðið. Danshópinn skipuðu Andrea, Elín, Nanna, Rakel Marín, Thelma Rut og Rakel Sif. Stelpurnar sömdu dansinn sjálfar.
Að borðhaldi loknu var slegið upp diskóteki. Þá var foreldrum boðið í kaffi og konfekt á kaffistofu starfsfólks á meðan nemendur stigu danssporin.
Myndir frá árshátíðinni eru á myndasíðu 7. bekkja