Skólaslit í Hofsstaðaskóla vorið 2015
Hofsstaðaskóla var slitið í 38. sinn miðvikudaginn 10. júní . 2., 5. og 6. bekkur mætti á sal en aðrir árgangar fóru beint í bekkjarstofur með kennurum sínum. Magnús Stephensen í 6. bekk spilaði á píanó fyrir gesti við skólasetningar í sal sem setti hátíðlegan svip á athafnirnar.
7. bekkur var kvaddur síðdegis sama dag. Nemendur léku á hljóðfæri og þrjár stúlkur fluttu kveðjuávarp frá nemendum þær Rakel Marín, Ragnhildur og Sólveig Marý. Að lokinni athöfn gæddu nemendur og foreldrar sér á ljúffengri súkkulaðiköku og ískaldri mjólk. Starfsfólk skólans óskar 7. bekkingum alls hins besta í nýjum skóla.
Í nýsköpun í 5. bekk voru veitt verðlaun þar sem Sonja Lind Sigsteinsdóttir í 5. BÓ hlaut fyrstu verðlaun fyrir hugmynd sína Ofnæmishnífapör, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir í 5. BÓ önnur verðlaun fyrir hugmynd sína Gítarhanskar og Hekla Sóley Marinósdóttir í 5. ÖM þriðju verðlaun fyrir hugmynd sína Sjónvarpstimer.
Í 6. bekk voru veitt verðlaun í Lampasamkeppni og valinn var Hönnuður Hofsstaðaskóla. Lampar nemenda hafa glatt okkur á sýningu sem staðið hefur yfir í nokkrar vikur og ljóst að hér í skólanum eru margir nemendur sem búa yfir miklum sköpunarkrafi og útsjónarsemi. Telma Sól Magnúsdóttir í 6. ÓP fékk fyrstu verðlaun fyrir lampann sinn Vínberið, Markús Pálsson í 6. GRG hreppti önnur verðlaun en hann hannaði lampann Rolling Stones sem var gamall bolur sem hann átti frá því hann var lítill og Viktoría Sólveig Kristinsdóttir fékk þriðju verðlaun fyrir lampann sinn Blóm. Örvar Logi Örvarsson hlaut titlinn Hönnuður Hofsstaðaskóla fyrir lampann sinn sem þótti bæði nýstárlegur, þrívíddin flott og lampinn persónulegur en á honum má sjá ljósmynd af Örvari bruna á skíðum niður brekku með framtíðina í fanginu. Allar viðurkenningarnar í 5. og 6. bekk voru myndavélar frá Marel.
Jónas Orri Daníelsson í 7. bekk fékk viðurkenningu frá Hofsstaðaskóla fyrir frábært og óeigingjarnt starf sem tæknimaður bæði í sínum árgangi svo og hjá yngri nemendum.
Þökkum ánægjulegt samstarf á liðnu skólaári og óskum nemendum og fjölskyldum þeirra ánægjulegs sumarleyfis.
Skólasetning haustið 2015 verður mánudaginn 25. ágúst.
Myndir frá skólaslitunum má sjá á myndasíðu skólans.