Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ratleikur um heiminn-Mystery Skype

04.12.2015
Ratleikur um heiminn-Mystery Skype

Nemendur í AMH enskuhópnum í 6. bekk tóku þátt í sínum fyrsta Mystery Skype leik í dag. Mystery Skype er n.k. ratleikur um heiminn þar sem nemendur frá tveimur skólum í mismunandi löndum reyna að finna út hvar hinn hópurinn er staðsettur með því að spyrja til skiptist spurninga sem eingöngu má svara með já eða nei.
Krakkarnir þurftu að undirbúa sig vel fyrir leikinn. Skipa þurfti öllum í hlutverk t.d. spyrlar, hlauparar, Googlarar, kortamenn, skrásetjarar, ljósmyndarar o.fl. Nemendur þurfa einnig að fara yfir ákveðna hluti í landafræði t.d. fara yfir heimsálfurnar, finna út hvaða lönd eru í norðri, suðri, austri og vestri og framvegis. Leikurinn reynir auk þess á ensku, rökhugsun, tjáningu, framkomu og samvinnu svo eitthvað sé nefnt.
Spennan og eftirvæntingin var mikil fyrir fundinn. Eftir að samband komst á var byrjað á því að leggja grunninn að samskiptunum en síðan byrjuðu hóparnir að skiptast á spurningum. AMH hópurinn var nokkuð fljótur að komast að réttu heimsálfunni en það gekk örlítið hægar að finna út landið. Við vorum í samskiptum við skóla á Indlandi sem náði að uppgötva að við værum frá Íslandi rétt áður en okkar hópur náði að átta sig staðsetningu þeirra. Okkar nemendur létu þó ekki staðar numið fyrr en þeir höfðu fundið staðsetninguna á Redfields skólanum sem við vorum í samskiptum við.

Nemendur stóðu sig framúrskarandi vel og höfðu bæði gagn og gaman af leiknum. Í lokin skiptust skólarnir á upplýsingum um landið sitt og indversku nemendurnir sýndu þjóðdansa og búninga. Okkar nemendur sungu „Krummi svaf í klettagjá og sýndu og sögðu frá snjónum á Íslandi.
Hópurinn er staðráðinn í að eiga fleiri slíka fundi eftir áramót og kynnast fleiri nemendum frá ólíkum þjóðum og þjálfa enn betur vinnubrögðin í þessum samskiptum.

Myndir frá fundinum eru komnar inn á myndasíðu skólans og hér má nálgast stutt myndband frá fundinum sem þær Sonja og Katla í enskuhópnum settu saman.

 

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband