Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nýtt smáforrit sem eflir lestur

13.01.2016
Nýtt smáforrit sem eflir lestur

Þriðjudaginn 12. janúar kom út nýtt smáforrit Study Cake sem hefur það að markmiði að efla börn dagsins í dag til þess að lesa. Forritið býður foreldrum upp á að verðlauna börn fyrir lestur. Börnin fá „heilasellur“ fyrir að leysa ákveðin mörg verkefni sem snúast um að lesa bækur og svara spurningum úr þeim og gefa álit á innihaldinu. Eftir að barnið safnar ákveðið mörgum heilasellum geta foreldrar verðlaunað börnin sín með einhverju ákveðnu og í leiðinni fá þeir betri yfirsýn yfir lesskilning barnanna sinna. Næstu sex mánuðina stendur til að semja spurningapakka fyrir 300 vinsælustu barnabækurnar á Íslandi sem notaðir verða í leiknum. Einnig er markmið fyrirtækisins að semja við þrjár stærstu bókaútgáfur landsins og Námsgagnastofnun. Hér má fræðast nánar um smáforritið Study Cake en það er hægt að sækja bæði í App store (ios) og Google Play (Android)

Læsi barna hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Í ágúst var hrint af stað þjóðarátaki um læsi og til að sameina krafta allra við að auka lestrarhæfni barna hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti í samvinnu við sveitarfélög, skóla og heimili unnið að gerð Þjóðarsáttmála um læsi. Þjóðarsáttmálinn er hvort tveggja í senn yfirlýsing og samningur við hvert sveitarfélag í landinu um sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis og að unnið verði eftir fremsta megni að því marki að a.m.k. 90% nemenda í hverju sveitarfélagi geti lesið sér til gagns árið 2018.

 

 

Til baka
English
Hafðu samband