Orðagull og íslensk tunga
Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það.
Smáforritið Orðagull, málörvunarapp fyrir spjaldtölvur, kemur út í dag í tilefni af degi íslenskrar tungu. Forritið er hannað fyrir elstu börn leikskóla og yngstu börn í grunnskóla. Þess má geta að smáforritið byggir á sama grunni og samnefnd bók sem kom út árið 2010. Höfundar efnisins eru Ásthildur Bj. Snorradóttir og Bjartey Gunnarsdóttir. Fyrirtækið Rosamosi sá um framleiðsluna.
Þessi viðburður er aðeins einn fárra í tilefni dagsins. Forseti Íslands mun opna vefsíðuna málið.is í Hörpu og boðið verður upp á upplestur verðlaunahafa í Stóru upplestrarkeppninni. Frekari upplýsingar um viðburði má finna á vefsíðu menntamálaráðuneytisins.
Í Hofsstaðaskóla verður sérstök dagskrá á sal skólans n.k. föstudag sem tileinkuð er degi íslenskrar tungu. Þá munu nemendur í 3. bekkjum sjá um dagskrána hjá yngri deild en nemendur í 5. bekk um dagskrána hjá eldri deild.