Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Viðurkenning í vísubotnasamkeppni

15.01.2018
Viðurkenning í vísubotnasamkeppni

Árlega heldur Menntamálastofnun vísubotnasamkeppni á Degi íslenskrar tungu. Nemendur um allt land spreyta sig þar á fyrripörtum sem hagyrðingurinn Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur sett saman. Að þessu sinni var vísubotn Péturs Harðarsonar 4. AÞ í Hofsstaðaskóla, valinn bestur á yngsta stigi. Fulltrúar Menntamálastofnunar, þær Elín Lilja Jónasdóttir og Sigríður Wöhler komu ásamt Ragnari og afhentu Pétri viðurkenningu og bókarverðlaun í samsöngstíma á sal. Þrír aðrir nemendur, Kristján Rúnar Einarsson, Júlía Sæunn Einarsdóttir og Elsa Día Hilmarsdóttir fengu sérstakt hrós og voru vísubotnar þeirra einnig lesnir upp. Vísubotnarnir verða svo birtir í ljóðatímariti Ragnars Inga sem nefnist Stuðlaberg. Til hamingju krakkar með góðan árangur. Verðlaunavísubotninn og nokkra aðra góða má lesa hér:

Skrýtinn jólavein ég sá
setja gott í skóinn.
Hjá honum köttur lítill lá
og sleikti af sér snjóinn.

 Pétur 


Skrýtinn jólavein ég sá
setja gott í skóinn.
Bráðum fer ég út að gá
hvort spor hans marki snjóinn.

 Júlía Sæunn


Oft er gaman ef ég fer
út á róluvöllinn.
Þar er mikið krakkager
og hávær hlátrasköllin.

 Júlía Sæunn

Oft er gaman ef ég fer
út á róluvöllinn.
Þar minn besti vinur er
að kíkja yfir fjöllin.

 Kristján Rúnar

Skrýtinn Jólavein ég sá
setja gott í skóinn.
Úti litla kisa lá og starði
út í snjóinn.

Elsa Día

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband