Umhverfissinnar í Hofsstaðaskóla
Nemendur í Hofsstaðaskóla fá fræðslu um umhverfismál í skólanum og hvatningu til að láta sig umhverfið varða, enda skiptir það okkur öll máli eins og fram kemur í umhverfissáttmála skólans:
"Jörðin okkar er ein
gerum henni ei mein."
Áhugi nemenda í 2. A á að hreinsa skólalóðina varð svo mikill í kjölfar fræðslu í bekknum að þeir höfðu frumkvæði að því að týna rusl á skólalóðinni í frímínútum og safnaðist mikið enda leyndist víða rusl eftir að snjóa leysti. Sumir létu ekki þar við sitja heldur týndu rusl í runnum við Bæjarbrautina svo að eftir því var tekið í bænum eins og sést á færslu sem sett var á Fésbókarsíðu íbúa Garðabæjar þann 11. mars af Ragnheiði Traustadóttur:
„Ég var að koma heim úr vinnunni sl. föstudag og gekk göngustíginn við Bæjarbrautina mætti þar tveimum stelpum,………… . Þær voru að týna rusl og voru á heimleið með ruslið því þær vildu ekki að þetta færi í sjóinn. Þær skildu ekkert í því af hverju það væri svona mikið rusl út um allt. Voru samt vissar um að ástæðan væri sú að við værum ekki að henda ruslinu í ruslið. Því annars væri ekki svona mikið rusl í öllum runnum. Væri gott ef við tækjum þær okkur til fyrirmyndar.“
Þarna voru á ferðinni tvær stúlkur úr 2. bekk Hofsstaðaskóla þær Lárey og Hafdís.