Íþróttadagur
Fimmtudaginn 7. júní var hinn árlegi íþróttadagur hjá okkur í Hofsstaðaskóla. Íþróttakennararnir Guðrún Arna, Guðrún Jóhanna og Hreinn höfðu umsjón með skipulagi íþróttadagsins sem var einstaklega skemmtilegur og allir höfðu gaman af. Kennarar og nemendur tóku þátt í ýmsum leikjum á fjölbreyttum stöðvum sem settar voru upp víðs vegar á skólalóðinni. Fremur kalt var í veðri til að byrja með en nemendur létu það ekkert á sig fá og hreyfðu sig því meira. Eftir alla útiveruna gæddu nemendur sér á grilluðum pylsum og safa áður en safnast var saman á Stjörnuvellinum. Þar fór fram árleg keppni milli kennara og nemenda 7. bekkja í kapphlaupi, reipitogi og kókosbolluáti. Nemendur unnu boðhlaupið með yfirburðum en kennarar tóku næstu tvær þrautir, reipitog og kókosbollukappátið. Mikil stemning myndaðist þar sem áhorfendur hvöttu keppendur til dáða. Nemendur héldu svo heim á leið með gleði í hjarta og bros á vör.
Kíkið á myndirnar á myndasíðu skólans.