Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þorrablót 6. bekkja

31.01.2019
Þorrablót 6. bekkja

Árlegt þorrablót 6. bekkja Hofsstaðaskóla fór fram þriðjudaginn 30. janúar. Að vanda lá mikill undirbúningur að baki þorrablótinu sem bæði nemendur og starfsfólk skólans tók þátt í. Huga þurfti að skreytingum, skemmtiatriðum, danskennslu og matarveislunni. Á sjálfan veisludaginn sjá nemendur um að skera niður þorramatinn undir dyggri handleiðslu matreiðslukennara og að leggja á borð og undirbúa matarveisluna undir handleiðslu umsjónarkennara og deildarstjóra eldri deildar. 

Dagskráin á þorrablótinu var með hefðbundnu sniði. Sýnd voru fjölbreytt og glæsileg skemmtiatriði. Atriðunum var skotið inn í leikrit þar sem boðskapurinn var að leita ekki langt yfir skammt að hamingjunni. Á meðal atriða voru tónlistarflutningur, myndbönd, dans og söngur. Ekki má gleyma frábæru þorramats kynningunni og minni karla og kvenna sem að þessu sinni var komið til skila í myndböndum sem sýnd voru. 

Þegar skemmtiatriðin voru búin var borinn fram matur. Boðið var upp á hákarl, súran hval, lundabagga, hrútspunga, harðfisk, saltkjöt, hangikjöt, sviðasultu bæði súra og ósúra, lifrapylsu og rófustöppu svo eitthvað sé nefnt. Nemendur fengu sérstaka áskorun um að borða hákarlinn en margir guggnuðu. Flestum þóttu hann vondur en örfáum þótti hann góður. Margir borðuðu matinn af bestu lyst en aðrir fengu sér bara flatkökur, harðfisk og hangikjöt.

Eftir matinn sungu konurnar lagið „Á fætur“ og karlarnir „Fósturlandsins Freyja“. Síðan voru tekin nokkur lauflétt lög. 
Síðast en ekki síst var stiginn dans. Nemendur hafa undir dyggri leiðsögn Hreins og Guðrúnar, íþróttakennara, lært að marsera, dansa skottís, polka, cha cha cha og kokkinn. Gleðin skein úr hverju andliti í dansinum og nutu krakkarnir þess sjáanlega að dansa og kenna foreldrum sporin sem þeir höfðu lært í íþróttatímunum. 

Þorrablót Hofsstaðaskóla hefur aldrei verið jafn fjölmennt og í ár og var salurinn fullsetinn og gott betur. Að þorrablótinu loknu fóru allir alsælir heim með minningar um skemmtilega samverustund og gott kvöld. 

Sjá má myndir frá undirbúningi þorrablótsins, æfingum og þorrablótinu sjálfu á myndasíðu 6. bekkja.

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband