Uppeldi til ábyrgðar - uppbygging sjálfsaga
Í Hofsstaðaskóla er nú unnið að innleiðingu Uppeldis til ábyrgðar sem byggir á þeirri hugmyndafræði að kenna börnum og ungmennum sjálfsaga og beita aðferðum sem ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn.
Diane Gossen er brautryðjandi Uppeldis til ábyrgðar og byggir hún kenningar sínar á Sjálfstjórnarkenningu, Reality Therapy, dr. Williams Glasser. Sjálfstjórnarkenningin segir okkur að við stjórnumst af eigin vilja og við veljum okkur hegðun sem hæfir þeirri mynd sem við höfum af sjálfum okkur. Gossen hefur einnig stuðs viðkenningar Alfie Kohn og Eric Jensen.
Starfsmenn Hofsstaðaskóla sátu námskeið um stefnuna í júní 2018 og hafa í vetur lesið bækur og fræðigreinar um efnið. Þeir hafa prófað nokkur verkefni með nemendum en hafa lagt mesta áherslu á að tileinka sér fræðilegan grunn, viðhorf, tungutak og nálgun á samskipti og agamál. Í júní 2019 verður svo framhaldsnámskeið í umsjá Cindy Levesque sem er kanadísk. Innleiðing stefnunnar mun taka nokkur ár og hefst á markvissri vinnu með nemendum og fræðslu.
Uppeldi til ábyrgðar
Byggir á að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.
Miðar að því að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga og læra af mistökum í samskiptum.
Ýtir undir hæfni til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.
Gefur innri styrk og sjálfstraust.
Þjálfar börn í því að vera þau sem þau vilja vera en ekki bara geðjast öðrum.
Ýtir undir umhyggjusamt skólasamfélag.
Uppbygging er að skapa skilyrði til þess að einstaklingur geti lagfært mistök og snúið aftur til hópsins og vaxi við herja raun.
Starfmenn sem vinna út frá hugmyndafræði Uppeldis til ábyrgðar:
Fá ný verkfæri til viðbótar við þau sem þeir þegar hafa.
Læra grundvallaratriði í samtalsmeðferð, læra að verða betri ráðgjafar.
Læra muninn á refsingu og aga og aga og sjálfsaga.
Læra um mannlega hegðun og samskipti
Reynslan sýnir að þeir sem ná að tileinka sér þessar aðferðir verða öruggari og ánægðari í starfi.