Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ólympíuhlaup ÍSÍ 2019

02.10.2019
Ólympíuhlaup ÍSÍ 2019

Norræna skólahlaupið hefur farið fram í grunnskólum landsins óslitið frá árinu 1984 og lengstan hluta þess tíma verið í umsjón ÍSÍ. Á síðustu árum hefur Ísland verið eina þátttökuþjóðin á Norðurlöndunum og nafn hlaupsins því ekki endurspeglað verkefnið. ÍSÍ hefur því ákveðið að breyta nafni hlaupsins og varð Ólympíuhlaup ÍSÍ ofan á. Þátttaka íslenskra grunnskólanemenda hefur verið mjög góð og almenn í gegnum árin en hefur náð nýjum hæðum á undanförnum árum. Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er eins og áður leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Í Hofsstaðaskóla fer halupið fram föstudaginn 4. október kl. 8.30 í 1. til 4. bekk og kl. 13.10 í 5. til 7. bekk. 

Nemendur geta nú sem áður valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. Mjólkursamsalan, MS, hefur frá upphafi styrkt útgáfu viðurkenningarskjala á myndarlegan hátt og mun halda því áfram og samstarfsaðili að þessu verkefni er eins og áður Íþrótta- og heilsufræðingafélag Íslands.

Hlaupið er styrkt af verkefninu European Week of Sport og verða þrír þátttökuskólar sem ljúka hlaupinu fyrir 30. september og skila inn upplýsingum til ÍSÍ dregnir út. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 30. september geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið send viðurkenningaskjöl, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2019.

Til baka
English
Hafðu samband