Sjáumst í myrkrinu og sýnum aðgát
Skammdegið færist yfir smám saman og líkur á hálku á morgnana aukast. Gott er að finna til endurskinsmerkin og hengja á úlpur og töskur svo allir sjáist vel þegar þeir koma gangandi í skólann, Yngri börnin eiga ekki að koma á hjóli á þessum árstíma og þeir sem vilja hjóla verða að vera með ljós á hjólinu sínu og fara varlega. Í skólanum er útivera a.m.k. tvisvar á dag og mikilvægt að allir séu klæddir þannig að þeir njóti útiverunnar. Hlífðarbuxur, hlý peysa, húfur og vettlingar eru nauðsynleg auk þess að vera vel skóaður.
Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu. Útsýni ökumanna er allt annað en þeirra sem eru gangandi eða hjólandi. Gangandi eða hjólandi vegfarendur ættu því ætíð að nota viðeigandi öryggisbúnað s.s. endurskin, ljósabúnað og hjálm. Við beinum því til ykkar að yfirfara hjólabúnað og yfirhafnir barnanna og ganga úr skugga um það að endurskinsmerki séu á yfirhöfnum og glitaugu og ljós á reiðhjólum.
Verum vel upplýst og örugg í umferðinni!