Dagur íslenskrar tungu
Í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem árlega er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi þjóðskáldins Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember settu nemendur og kennarar í 3. og 6. bekkjum skólans saman veglega dagskrá og fluttu á sal föstudaginn 15. nóvember.
Hjá yngri nemendum var dagskráin í höndum 3. bekkinga og hófst hún á laginu „17 þúsund sólargeislar úr Bláa hnettinum. Lag Kristjönu Stefánsdóttur og texti eftir Berg Þór Ingólfsson. Einnig fluttu þau Íslenskuljóðið eftir Þórarinn Eldjárn. Í framhaldinu var sagt frá skáldinu Sigrúnu Eldjárn sem hefur verið ótrúlega dugleg að skrifa bækur og lesið upp úr bókum hennar. Dagskránni lauk með fallegum söng allra nemenda á laginu „Öxar við ána“ og Íslenskuljóðið var endurtekið.
Hjá 5. – 7. bekk var dagskráin í höndum 6. bekkinga sem sögðu frá Jónasi Hallgrímssyni í máli og myndum. Þá stigu nemendur á stokk og sýndu frumsamið leikrit Ljóðaútúrsnúningurinn Eftir það lásu nokkrir nemendur eigin ljóð, sýndir voru frumsamdir dansar og sýnt myndband sem gert var í anda sjónvarpsþáttanna Orðbragð. Í lokin sungu allir saman lagið á Íslensku má alltaf finna svar við texta eftir Þórarinn Eldjárn. Á milli atriða léku nokkrir nemendur á ýmis hljóðfæri.
Myndir frá sýningunum má finna á myndasíðu skólans og hér má nálgast myndband 6. bekkinga