Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, miðvikudaginn 28. maí. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ tóku þátt í lokahátíðinni. Garðabær og Seltjarnarnes hafa undanfarin ár verið í samstarfi um lokahátíðina og skiptast á að halda lokahátíðina en í ár var Seltjarnarnes fjarri góðu gamni. Á lokahátíðinni fengu 8 nemendur í sjöunda bekk úr Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta úr skáldsögum og ljóðum. Eik María Emilsdóttir og Vigdís Rut Jóhannsdóttir voru fulltrúar Hofsstaðaskóla og stóðu þær sig með mikilli prýði.
Í ár voru skáld keppninnar Birkir Blær Ingólfsson og Jón Jónsson eða Jón úr Vör. Einnig fengu nemendur að lesa ljóð að eigin vali. Á meðan á hátíðinni stóð var einnig boðið upp skemmtiatriði frá skólunum og í ár voru það einstaklega flott tónlistaratriði þar sem spilað var á píanó, fiðlu og saxafón.
Í lok hátíðar afhenti Eiríkur Björn Björgvinsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, öllum lesurunum bók frá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem viðurkenningu fyrir þátttökuna. Varamenn sem tóku fullan þátt í undirbúningnum voru einnig kallaðir upp á svið og fengu bókaverðlaun. Dómnefnd sem var að störfum fékk það erfiða val að velja þrjá lesara úr hópnum og veita þeim viðurkennningar og verðlaun fyrir 1.-3. sæti.
Í fyrsta sæti í ár var nemandi úr Sjálandsskóla og í öðru sæti og þriðja sæti urðu fyrir valinu nemendur úr Flataskóla.