Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vetrarleyfi grunnskóla

19.02.2021
Vetrarleyfi grunnskóla

Vikuna 22. - 26. febrúar er vetrarleyfi í grunnskólum Garðabæjar. Frístundaheimilið Regnboginn er opinn fyrir þau börn sem búið er að skrá. Skrifstofa Hofsstaðaskóla er lokuð þessa viku. 

Það sem af er vorönn hefur gengið mjög vel hér í Hofsstaðaskóla. Nemendur mættu í góðu jafnvægi úr jólaleyfi tilbúnir til þess að takast á við námið. Lítið hefur verið um veikindi nemenda og starfsmanna sem er fagnaðarefni. Öskudagurinn var með öðrum blæ en venja er hér í skólanum en tókst mjög vel og var hver árgangur með sína dagskrá. Skólinn bauð öllum upp á poppkorn sem vakti mikla lukku. Sjá má myndir og frétt um daginn hér á vefsíðu skólans.

Sóttvarnareglur og takmarkanir sem gilda um skólastarf eru í gildi út febrúar og við vitum ekki hvort þeim verður breytt eða haldið verður áfram með sama hætti. Við vonum auðvitað að við fáum að hafa heilan árgang saman t.d. í samveru á sal eða öðru. Starfsfólkið er enn í hólfun og fjarfundir eru orðnir okkur tamir. Við heyrum ekki annað en að almennt hafi forráðamenn verið ánægðir með rafræn nemenda- og foreldrasamtöl. Dæmi eru um að foreldrar sem hingað til hafa ekki getað mætt í samtölin vegna atvinnu sinnar hafi getað tekið þátt núna sem er ánægjulegt.

Úrtak foreldra fékk senda skoðanakönnun frá Skólapúlsinum fyrr í febrúar og er svörun komin í 68%. Betur má ef duga skal því þurfum að fá 80%. Vonandi tekst það á allra næstu dögum.

Eftir vetrarleyfið er komin marsmánuður og þá eru fjórar kennsluvikur fram að páskaleyfi. Í mars eru á dagskrá fjallaferðir í 4. – 7. bekk og svo er Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk haldin hér í Garðabæ 24. mars. Það er óðum að birta til og þessi mildi vetur er einstakur.

Við óskum ykkur góðrar helgar og ánægjulegs vetrarleyfis.

Stjórnendur og starfsfólk Hofsstaðaskóla.

Til baka
English
Hafðu samband