Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gleðilegt sumar

22.04.2021
Gleðilegt sumar

Takk fyrir veturinn sem hefur verið sérstakur á svo margan hátt. Veðurfarslega sá mildasti frá árinu 1976, einungis níu alhvítir dagar hér á suðvesturhorninu. Samfélagslega, hefur samstaða gegn skæðri og síkvikri veiru litað allt okkar líf og hefur sú varnarbarátta reynt á okkur öll. Við höfum verið afar heppin hér í Hofsstaðaskóla og allir hafa staðið sig vel í sóttvörnum og því að fylgja tilmælum og reglum. Við þurfum nú æfa og styrkja seigluna og halda út allt til enda skólaársins.

Náttúruöflin stigu svo fram og tóku öll völd með jarðhræringum og loks stórkostlegu eldgosi sem við sjáum glitta í héðan úr bænum okkar.

Svo sannarlega vetur sem fer á spjöld sögunnar. Í skólanum fáum við mörg tækifæri til þess að flétta allt þetta inn í nám og kennslu, spegla samfélagið og mennta og þroska nemendur og starfsfólk. Megi sumarið/vorið verða okkur gjöfult og ánægjulegt.

 

Vor

Vermir sólin vota jörð,

vindar bærast hlýir,

gægjast upp um gráan svörð

gróðursprotar nýjir.

Valdís Halldórsdóttir

 

Sumarkveðja

Skólastjóri

Til baka
English
Hafðu samband