Sumarkveðja
Hofsstaðaskóla var slitið í 43. sinn 9. júní sl. Aldrei hafa verið fleiri nemendur í skólanum og stærsti árgangurinn 7. bekkur taldi 99 nemendur. Skólaárið hefur verið afar lærdómsríkt og ber þar hæst viðbrögð við heimsfaraldri með viðeigandi sóttvörnum og takmörkunum sem sett svip sinn á starfið. Við höfum verið afar heppin, enginn starfsmaður hefur smitast af veirunni og einungis hluti nemenda og starfsmanna sem þurfti að fara í sóttkví einu sinni. Aðkoma foreldra að skólastarfinu hefur verið í sögulegu lágmarki og er þar verk að vinna fyrir næsta skólaár. Rafræn nemenda- og foreldrasamtöl tókust vel og verða án efa valkostur í framtíðinni sem og aðrar nýjungar sem við höfum tileinkað okkur. Við biðjum foreldra um að vera virka í foreldrafélaginu og bekkjarfulltrúastarfi næsta skólaár. Námsárangur nemenda er góður og námsframvinda mjög góð. Einungis hluti námsmats birtist á vitnisburðarblaði og nauðsynlegt er að kynna sér vel það sem er að finna undir flísinni Námsmat á mentor.is. þar eru umsagnir, útskýringar og Hæfnikort nemenda.
Nú er sumarið framundan og vonandi fer það mildum höndum um okkur öll. Við hvetjum alla nemendur til þess að lesa daglega og lesa fjölbreytt efni. Æfingin skapar meistarann og ekki gott ef að lestrarfærninni fer aftur í sumar. Sund og sundæfingar eru líka góðar fyrir alla og það að leika sér úti er bráðnauðsynlegt.
Við óskum nemendum og forráðamönnum gleðilegs sumars og hlökkum til að sjá ykkur aftur í ágúst. Skólasetning verður þriðjudaginn 24. ágúst. Skóladagatal næsta árs er að finna á vefsíðu skólans.
Bestu kveðjur
Stjórnendur