Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólastarf á vorönn 2022 hafið

04.01.2022
Skólastarf á vorönn 2022 hafið

Kæru forráðamenn í Hofsstaðaskóla
Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir samstarfið á liðnu ári. Enn á ný mætum við öll Covid áskorunum og sem aldrei fyrr reynir á samtakamátt okkar allra.

Skólastarf hefst 4. janúar samkvæmt stundaskrám. Frístundaheimili opna líka. Eins og fram kom í dreifibréfi frá Jóni Viðari framkvæmdastjóra almannavarna á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar viðbúið að einhver röskun geti orðið á starfsemi skóla á næstunni. Unnið er samkvæmt reglugerð nr. 1484 um takmörkun á samkomum vegna farsótta frá 22. desember 2021. 
Þegar er ljóst að skólinn stendur frammi fyrir talsverðum forföllum og margir starfsmenn eru komnir í sóttkví eða í einangrun. Ef til þess kemur að fella þurfi niður kennslu vegna forfalla starfsfólks verður kennsla yngstu barnanna í forgangi. Það sama á við um frístundaheimilið. Yngstu börnin og börn forgangsaðila eru í forgangi með vistun þar.
Reynt verður eftir fremsta megni að halda úti sem eðlilegustu starfi innan þess ramma sem gildandi sóttvarnarreglur segja til um. Til þess að styðja við þá viðleitni þurfa foreldar og forráðamenn að huga vel að persónubundnum sóttvörnum, börn eiga ekki að mæta í skóla með kvefeinkenni, verði þeirra vart þarf að fara í PCR próf. Því er treyst að forráðamenn virði þessi tilmæli. Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til. Jafnframt skulu þeir bera grímu. Fundir með forráðamönnum verða að jafnaði haldnir í fjarfundabúnaði.

Forráðamenn eru beðnir um að skrá veikindi eða leyfi í mentorkerfinu eftir því sem það er unnt og minnka þannig álag á símsvörun skrifstofu skólans. Skólinn þarf að fá upplýsingar um það ef nemendur eru í sóttkví eða í einangrun og í þeim tilfellum biðjum við ykkur um að senda tölvupóst á hskoli@hofsstadaskoli.is.
Með ósk um áframhaldandi gott samstarf við ykkur og von um að hægt verði að halda skólastarfi án mikillar skerðingar næstu vikur og mánuði.

Hafdís Bára Kristmundsdóttir
skólastjóri

Til baka
English
Hafðu samband