100 daga hátíð
Í vikunni 24.-28. janúar rann upp hundraðasti skóladagurinn á þessu skólaári og litaðist vika nemenda í 1. bekk af því. Hápunkturinn hjá þeim var föstudaginn 28. janúar þegar 100 daga hátíðin fór fram. Þá gerði þessi árgangur, sem er á sínu fyrsta skólaári, sér glaðan dag. Í boði var að koma með sparinesti í skólann og nemendur máttu líka mæta í kósýgalla eða náttfötum. Byrjað var á dúndrandi danspartýi í samkomusalnum þar sem þessum merka áfanga var fagnað í dansi, hoppi og skoppi.
Á hundrað daga hátíðinni hefur tíðkast að nemendur 1. bekkja fari í skrúðgöngu um skólann þar sem þeim er fagnað af starfsfólki og nemendum eldri bekkja. Krakkarnir búa til kórónur sem þeir bera í skrúðgöngunni og einnig gerðu þeir hálsfestar. Þennan dag er einnig unnið með töluna hundrað á fjölbreyttan hátt t.d. búið til hundraðhús og safnaðí 10 sinnum 10 molum af góðgæti sem þau fengu að gæða sér á yfir skemmtilegri mynd.
Það voru kátir og glaðir nemendur og starfsmenn sem héldu heima að lokinni vel heppnaðri hátíð.