Uppbygging Hofsstaðaskóla í Minecraft
Vikuna 14.-18. febrúar fengu allir smiðju nemendur í 1.-7. bekk sem áttu að vera í smíði annars konar smíðaverkefni. Í sameiningu áttu þeir að byggja Hofsstaðaskóla og verkfærið sem þeir fengu var tölva og Minecraft hugbúnaðurinn. Minecraft er risastórt samfélag á netinu og í því samfélagi geta kennarar sent nemendur sína inn í tilbúna veröld sem snýst um hin ýmsu viðfangsefni. Minecraft er frábært verkfæri sem hægt er að nota sem kennslutæki því auðvelt er að tendra áhuganeista hjá nemendum þar sem margir þeirra kannast við leikinn og hafa leikið hann.
Nemendur voru spenntir og mjög áhugasamir um verkefnið og því fljótir að læra og hefja vinnuna. Þeir sem kunnu betur voru duglegir að kenna bæði samnemendum sínum og kennaranum ef svo bar undir. Nemendur byggðu nákvæma eftirlíkingu af hverjum króki og kima skólans og fóru reglulega í könnunarleiðangra til þess að hafa allt nákvæmt. Að sjálfsögðu leyfðu nemendur hugmyndafluginu að ráða og tóku sér skáldaleyfi og bættu við ýmsum frábærum hlutum í skólann sem ekki er þar að finna í raunheimum og sem dæmi um það má nefna endurskipulagningu skólalóðarinnar.
Í lok vikunnar var skólabyggingin orðin glæsileg og fullinnréttuð að skapi og smekk nemenda.
Verkefnið var unnið í samstarfi við Skema í HR en þau sáu um skipulagningu og utanumhald verkefnisins. Skema í HR er leiðandi í forritunar- og tækni kennslu fyrir börn og unglinga. Skema í HR miðar að því að veita öllum börnum á Íslandi tækifæri til menntunar í forritun og tækni.
Þess má geta að nemendur í Hofsstaðaskóla kynnast forritun strax í upphafi skólagöngunnar. Hjá yngstu nemendunum fer forritunarkennslan gjarnan fram í hringekjum eða skipulögðum tímum bekkjanna. Þá eru gjarnan notuð ipad tæki og ýmis vélmenni og búnaður sem gerir nemendum kleift að sjá forritin lifna við. Í 3. - 7.bekk er forritun kennd í smiðjum en þá læra nemendur í fyrstu s.k. kubbaforritun og búa til röð aðgerða sem þeir prófa og greina.
Að þekkja og nota forritunartungumál er ákveðið læsi á stafrænni öld. Með forritunarþekkingunni færasta nemendur frá því að vera eingöngu neytendur að tækninni yfir í að vera notendur og þeir geta nýtt sér hana til sköpunar. Það er í raun einungis þeirra eigin ímyndunarafl sem stjórnar ferðinni.
Þegar unnið er með forritun þjálfast bæði rökhugsun og lausnarmiðuð hugsun. Nemendur sjá afraksturinn á gagnvirkan hátt um leið og þeir forrita og eitthvað sýnilegt verður til. Nemendur þjálfast í samvinnu og þolinmæði því það að leita lausna saman og sýna þrautseigju lærist vel með forritun. Nemendur læra að hugsa leiðina að takmarkinu í litlum skrefum, brjóta vandamálin í minni einingar og finna lausnir á hverri þraut með gagnrýnni hugsun. Leikni á þessu sviði gefur nemendum færni sem getur orðið þeim mikilvæg í framtíðinni.
Á yngsta stigi eru það umsjónarkennarar sem sjá um forritunarkennsluna en okkur til aðstoðar við forritunarkennsluna í 4. - 7. bekk er Úlfur Atlason frá Skema og hefur verið mikill fengur að fá hann til okkar.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá afrakstur vikunnar, flogið er um skólalóðina og inn í flest rými skólabyggingarinnar.
Hér eru nokkrar ljósmyndir frá vikunni og kynningunni sem haldinn var föstudaginn 11. mars en þá gafst öllum nemendum tækifæri til að berja afraksturinn augum.