Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

EU Code Week-Forritun

24.10.2022
EU Code Week-Forritun

Hofsstaðaskóli tekur þátt í EU Code Week sem stendur yfir frá 8.-23. október. Úlfur Atlason forritunarkennari hjá Skema er einn af fjölmörgum sjálfboðaliðum (forritunarfulltrúum) (e. code Ambassadors) sem koma að því að skipuleggja viðburði undir formerkjum Codeweek. Úlfur undirbjó tvö skemmtileg verkefni, annars vegar fyrir nemendur í 3. - 4. bekk og hins vegar fyrir nemendur í 5. - 7. bekk sem kennarar hafa aðstoðað nemendur við að vinna. Markmið vikunnar er að gera forritun meira sýnilega, svipta hulunni af hæfileikunum og stefna áhugasömum saman í lærdóm helguðum tækninni.

Evrópska forritunarvikan (EU CodeWeek) er grasrótarverkefni sem stefnir saman milljónum barna, foreldra, kennarar, frumkvöðla og stefnumarkandi aðila í Evrópu sem sameinast á viðburðum og námskeiðum gagngert til að læra forritun og til að auka tæknilega tilburði sína. Verkefnið miðar að því að efla stafrænt læsi og veita öllum tækifæri til að læra á skemmtilegan og grípandi hátt. Í forritunarvikunni vinna krakkarnir skemmtilegar, fræðandi og gagnvirkar forritunaræfingar. 

Nemendur í 3. - 4. bekk fengu tækifæri til að kynnast forritun, gervigreind og verndun hafsins með því að vinna verkefnið Oceans á code.org. Verkefnið snýst um að þjálfa gervigreindarvélmenni til að þekkja í sundur sjávarlífverur og rusl og geta hreinsað hafið. Í gegnum vinnuna fá nemendur ýmsan fróðleik sem tengist verndun hafsins og hættum sem beinast að því og kynntust gervigreind og möguleikum hennar í samfélaginu. 

Nemendur í 5. - 7. bekk fengu að kynnast rafrænni myndlist með því að skapa sín eigin blómabeð. Verkefnið tengdist nokkrum námsgreinum s.s. stærðfræði, myndmennt, forritun og náttúrufræði því nemendur þurftu að skapa sín eigin blómabeð, hanna blöð og blóm og ákveða fjölda blaða o.fl. Það var svo fært yfir í tölvu og forritið og blöðin forrituð til að snúast og stimplast á eftir ákveðið margar gráður. 

Afrakstur verkefnisins geta nemendur sent í tölvublómakeppni Skema en dómnefnd mun ákveða sigurvegara sem hlýtur verðlaun.

Forritun á öllum aldursstigum

Þess má geta að forritun er kennd í öllum bekkjum Hofsstaðaskóla. Í forritun eru nemendur þjálfaðir að beita gagrýninni hugsun og röksemdafærslu. Þeir læra að nota þekkingu sína og leikni, draga ályktanir og sýna áræðni til að leita nýrra lausna. Með forritun er því verið að þjálfa umfram allt grunnþætti í lykilhæfni nemenda samkvæmt aðalnámskrá.

Á yngsta stigi (1. og 2. bekk) vinna nemendur í smáforritum á ipad tæki s.s. Box Island og Run Marko. Einnig vinna þeir með lítil vélmenni s.s. Blue bot býflugur og litlar mýs sem þeir forrita til að leysa ýmis verkefni. Einnig nota þeir Osmo coding. Í 3. bekk bætist að auki við forritun í smiðjutímum þar sem kennt er á Scratch.

Á miðstigi fá nemendur einnig forritunarkennslu í smiðjutímum og vinna þeir áfram í Scratch, með Microbit og á ýmsum vefjum s.s. Code.org. Þeir kynnast enn frekar forritanlegum vélmennum Sphero. 

Nemendur Hofsstaðaskóla hafa á hverju ári tekið þátt í Bebras áskoruninni en Bebras er alþjóðlegt verkefni sem hvetur börn til að nota hugsunarhátt forritunar (comp. thinking) við að leysa verkefni. Bebras áskorunin á Íslandi fer fram vikuna 7.-11. nóvember í ár. Að sjálfsögðu vonumst við eftir góðri þátttöku í ár líkt og undanfarin ár.

 

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband