Íslandsmeistarar Barnaskólasveita í skák
09.03.2025

Í mótinu kepptu 22 skólar og tefldu fjórir í hverri sveit. Í fyrstu umferð vann Hofsstaðaskóli Reykjavíkurmeistara Rimaskóla og eftir um hálft mót var Hofsstaðaskóli orðinn efstur. Fyrir lokaumferðina var forystan 1,5 vinningar á Rimaskóla en í lokaumferðinni vann Rimaskóli sína viðureign fljótt 4-0. Hofsstaðaskóli þurfti því að lágmarki 3 vinninga gegn sterkri sveit Melaskóla. Þrjár skákir kláruðust nokkuð hratt og staðan var 2-1 fyrir Hofsstaðaskóla og allir söfnuðust í kringum síðustu skákina hjá Þorvaldi Orra. Hann sýndi stáltaugar og sigldi Íslandsmeistaratitlinum í hús með sigri. Aðeins munaði hálfum vinningi á Hofsstaðaskóla og Rimaskóla.
Benedikt Dagur og Þorvaldur Orri fengu borðaverðlaun fyrir árangur sinn í mótinu og gerði Benedikt sér lítið fyrir og vann allar sínar skákir. Allir strákarnir stóðu sig frábærlega en Helgi Þór var bara hálfum vinning frá borðaverðlunum (sem fást fyrir 6 vinninga í 7 skákum) og Jakob tók að sér það krefjandi hlutverk að leiða sveitina á fyrsta borði og mætti öllum sterkustu skákmönnum aldursflokksins með flottum árangri.