Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þemadagar-Fjölgreindaleikar

13.11.2008
Þemadagar-Fjölgreindaleikar

Þemadagar, þar sem allir nemendur skólans vinna saman að einu ákveðnu þema, er fastur liður í skólastarfinu einu sinni á skólaári. Skólaárið 2008-2009 verður unnið með fjölgreindarkenningu Howards Gardner á svo kölluðum Fjölgreindarleikum sem standa yfir í tvo daga, miðvikudaginn 19. nóvember og fimmtudaginn 20. nóvember.

Markmið með þemaviku er m.a. að:

  • efla með nemendum félags- og skólaanda
  • nemendur kynnist nemendum úr öðrum bekkjum
  • þjálfa samvinnu nemenda
  • vinna með huga og hönd

Á þemadögum er hefðbundið skólastarf leyst upp og nemendur skólans vinna saman að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum sem reyna á þá með ýmsum hætti. Að þessu sinni taka nemendur þátt í Fjölgreindarleikum en þá er fjölgreindakenning Gardners höfð að leiðarljósi.

Nemendum er skipt upp í lið sem í eru 11-12 nemendur úr öllum árgöngum. Elstu krakkarnir eru fyrirliðar. Liðið vinnur saman að því að leysa þrautir sem fyrir það er lagt. Þrautirnar reyna á ýmsa hæfileika eins og að syngja, dansa, sippa, mála, vélrita, kasta, grípa og búa til skilaboð svo eitthvað sé nefnt. Allir í liðinu þurfa að vinna saman að lausn þrautanna. Á hverri stöð fær liðið stig fyrir frammistöðu og framkomu liðsmanna.

Markmið leikanna er m.a. að allir fái að njóta sín með einhverjum hætti og efla kynni við aðra í skólanum í leiðinni.
 
Annan daginn vinna nemendur í íþróttahúsinu og hinn daginn í skólanum. Skóla lýkur kl. 13:45 hjá öllum nemendum. Tómstundaheimilið hefst strax að Fjölgreindarleikum loknum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér fjölgreindarkenningar Howards Gardner betur þá bendum við á bókina Fjölgreindir í skólastofunni. Einnig er hægt að sækja ýmsan fróðleik á eftirfarandi vefsíðum:

Gullkistan-fróðleikur um fjölgreind og verkefni

Wiki bækur-fróðleikur um fjölgreindarkenningu

 

Til baka
English
Hafðu samband