Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Heimurinn inn í kennslustofuna

21.11.2008
Heimurinn inn í kennslustofunaSvokallaðar skjátöflur eða gagnvirkar töflur hafa verið að ryðja sér til rúms í íslenskum skólum á undanförnum misserum. Hofsstaðaskóli er þar engin undantekning því skólinn hefur fjárfest í þremur slíkum töflum á undanförnum árum. Keyptar voru þrjár Smartboard töflur af Varmás í Mosfellsbæ. Ein taflan er staðsett í tölvustofunni en hinar tvær í kennslustofum 4. bekkja.
Umsjónarkennarar 4. bekkja, Ragnheiður Stephensen og Bryndís Svavarsdóttir ásamt kennsluráðgjafa í tölvu- og upplýsingatækni Elísabetu Benónýsdóttur sóttu um og hlutu örlítinn þróunarstyrk til að innleiða og efla notkun á töflunum í kennslu.
Töflurnar eru tengdar við tölvu og er myndinni varpað á töfluna með áföstum skjávarpa. Hægt er að vinna beint á töfluna með fingrunum en einnig fylgir hugbúnaður, pennar og töfluþurrka. Allar aðgerðir er hægt að vinna með því að styðja fingri á töfluna eða teikna beint á hana; fingurinn verkar þá eins og bendill, mús og penni, allt í senn. Allt sem unnið er á töfluna er hægt að vista, prenta, senda nemendum með tölvupósti eða setja á heimasíðu. Með Smart Board er auðvelt að "flytja heiminn inn i kennslustofuna" því hægt er að hafa aðgang að og sýna upplýsingar af Netinu, sýna myndbönd, glærur, efni af geisladiskum og nota allan þann hugbúnað og þær aðgerðir sem tölvan og taflan búa yfir.
Eitt af markmiðum með tilkomu töflunnar er að auka fjölbreytnina í kennslunni, virkja nemendur til þátttöku og ná betur athygli þeirra. Bestur árangur næst með því að höfða til sem flestra skilningarvita; að gefa nemendum tækifæri til að sjá, heyra, snerta.
Til baka
English
Hafðu samband