Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sjáumst í myrkrinu og notum skjáina skynsamlega

27.01.2017
Sjáumst í myrkrinu og notum skjáina skynsamlegaFimmtudaginn 26. janúar fengu nemendur í Hofsstaðaskóla afhent endurskinsmerki að gjöf. Mannréttinda- og forvarnanefnd Garðabæjar stendur að verkefninu. Í bréfi sem Sigríður Björk Gunnarsdóttir, formaður nefndarinnar sendi foreldrum vegna málsins kemur fram að ástæður þess eru tvær:

"Í fyrsta lagi eru endurskinsmerki nauðsynleg til að sjást betur í myrkrinu og sem hluti af auknu öryggi í umferðinni. Ég hvet ykkur öll, kæru foreldrar, til þess að sjá til þess að börnin ykkar noti merkin, eða önnur endurskinsmerki, nú á dimmasta tímanum. Mikilvægt er að hengja merkin á áberandi stað.

Í öðru lagi viljum við minna börnin á skynsamlega skjánotkun í framhaldi af forvarnavikunni í október síðastliðnum. Slagorð forvarnavikunnar var „Ertu gæludýr símans þíns?“ og er það prentað á endurskinsmerkin, ásamt merki Garðabæjar. Það kemur skýrt fram í nýjustu könnunum á líðan barna á grunnskólaaldri að mikil skjá- og samfélagsmiðlanotkun, sem og mikil leikjaspilun, getur haft neikvæð áhrif á líf barna. Afleiðingarnar geta meðal annars verið vaxandi kvíði, svefnleysi og vanlíðan. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja ykkur til að halda áfram að fylgjast vel með skjánotkun barnanna ykkar og passa upp á að hún verði ekki of mikil. Ferðalag í netheimum getur verið varasamt líkt og að ferðast í umferðinni."

Ekki þarf að fjölyrða mikið um skammdegið sem við Íslendingar búum við þessa dagana og vikurnar og mikilvægi þess að sjást í umferðinni. Vonandi verður þessi litla gjöf til að auka öryggi barnanna í Garðabæ.

Meðfylgjandi myndir sýna nemendur í Hofsstaðaskóla með endurskinsmerkin eftir að þeim var dreift í skólanum í vikunni.

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband