Elding-góð gjöf frá foreldrafélagi skólans
Foreldrafélag Hofsstaðaskóla afhenti skólanum formlega góða gjöf þann 11. september síðastliðinn. Um er að ræða hljóðvistarlistaverk hannað af Bryndísi Bolladóttur listakonu sem ber nafnið Elding. Uppsetningu verksins lauk laugardaginn 18.8.2018 kl.18.
Hljóðvistin í hátíðarsalnum/matsalnum hefur lengi verið til vandræða en með tilkomu listaverksins dempast hljóðið í matsalnum án þess að rýra hljóðvistina á skemmtunum.
Í hugleiðingum hönnuðar kemur m.a. fram að Skapandi og sjálfstæð hugsun og hugvit er framtíðin. Verkið er abstrakt, fullt leikgleði þar sem það svífur yfir hátíðarsalnum. Grunnformið er lína sem myndar þríhyrninga en það er sama formið og er víða á veggjum við innganga skólans. Verkið er þrívítt og með ólíka hæðarpunkta sem og snúninga þeirra þríhyrninga sem það myndar. Það eru því fjölmörg ólík sjónarhorn á verkinu eftir því hvar staðið er. Listakonan nota nokkra liti til að fá meiri hreyfingu til að mynda meira flæði og til að hreyfa meira við skynfærum barnanna. Hún veltir því upp hvað þau sjá ef þau ganga t.a.m. í hring og skrifa eða tjá sig um hvað er að gerast í loftinu eða hvað þau sjá ef þau leggjast á gólfið.
Að sjálfsögðu ræðst afstaða línanna einnig af hljóðvistarlegum tilgangi þeirra og hjálpa ólíkir hæðarpunktar til við uppbrot á hljóði.
Við væntum þess að verkið muni veita bæði ánægju og gleði.
Kærar þakkir foreldrar fyrir frábæra og fallega gjöf.