Skólaslit 2022
Miðvikudaginn 8. júní fóru fram skólaslit. Árið í ár var mjög sérstakt sem og síðustu tvö skólaár því öll vorum við að takast á við verkefni sem ekkert okkar hafði reynslu af. En með samstilltu átaki og lausnamiðaðri hugsun tókst okkur þrátt fyrir heimsfaraldur, sóttvarnir og takmarkanir að halda uppi öflugu skólastarfi. Fyrir það erum við þakklát.
Það var því kærkomið að geta loksins safnast saman á sal til að eiga hátíðlega stund og kveðja nemendur og aðstandendur þeirra. Hafdís Bára Kristmundsdóttir, skólastjóri, Margrét Einardóttir aðstoðarskólastjóri, Margrét Erla og Arnheiður Ösp deildastjórar skiptu á milli sín að ávarpa samkomuna og nestuðu nemendur og foreldra með nokkrum góðum heilræðum. Þær minntu m.a. á mikilvægi lesturs yfir sumarið, mikilvægi þess að vera úti með vinum sínum að læra og leika. En umfram allt minntu þær nemendur á mikilvægi þess að vera trúir sjálfum sér og öðrum og segja frá ef þeim væri misboðið eða á þeim brotið og líka ef þeir sæju að öðrum væri misboðið eða liði illa. Að lokum hvöttu þær nemendur og aðstandendur þeirra til að skoða hæfnikortin vel á Mentor og það sem lægi að baki námsmatinu en muna að bera sig ekki saman við aðra heldur bæta sjálfa sig, setja eigin markmið og keppa að því að ná þeim. Umfram allt að keppast að því að verða betri manneskja, verða dúx í eigin lífi, í samskiptum og mannkostum.
Eftir hátíðlega stund á sal skólans héldu nemendur með umsjónarkennurum sínum í kennslustofur og fengu afhent vitnisburðarblöðin og kvöddu áður en þeir héldu glaðbeittir í sumarfríið.
Starfsfólk og stjórnendur skólans þakka gefandi samstarf á skólaárinu sem er að líða og senda bestu kveðjur um ánægjulegt sumarleyfi.
Skólastarf hefst að nýju með skólasetningu þriðjudaginn 23. ágúst. Skóladagatal næsta árs er að finna hér á vefsíðu skólans undir Skólinn/Skóladagatal.
Fleiri myndir frá skólaslitum