Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Félagsstarf 7. bekkinga - Félagsmiðstöð

15.01.2025
Félagsstarf 7. bekkinga - Félagsmiðstöð

Þessa daganna eru spennandi hlutir að gerast í Hofsstaðaskóla. Vísir að félagsmiðstöð í skólanum er að opna og mun hún til að byrja með þjónusta nemendur í 7. bekk.
Þeir Ari Sverrir aðstoðarforstöðumaður frístundaheimilisins Regnbogans og Tómas Þór, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar í Sjálandsskóla hittu nemendur í 7. bekk í síðustu viku og kynntu starfið fyrir þeim. Ari Sverrir mun stýra félagsmiðstöðinni hér og Tómas aðstoðar við uppbyggingu og undirbúning.

Á kynningarfundinum var farið yfir það hvað félagsmiðstöð er og hlutverk hennar kynnt. Nemendur í 7. bekk fá einnig að vera með í ráðum varðandi uppbyggingu félagsmiðstöðvarinnar með t.d. að ráða hvaða dag það verður opið, hvaða búnaður á að vera til staðar og dagskrána. Kynnt var nafna- og Logo keppni. Nemendur fá tækifæri til þess að koma með hugmyndir að nafni og logoi fyrir félagsmiðstöðina. Ari Sverrir tekur við hugmyndum.
Miðvikudagar og fimmtudagar henta nemendum best og verður því opið kl. 17:00-19:00 á miðvikudögum og fimmtudögum til skiptist, þ.e. miðvikudag aðra vikuna og fimmtudag hina vikuna. Starfið hefst fimmtudaginn 23. janúar n.k. Félagsmiðstöðin verður staðsett í Regnboganum, frístundaheimili Hofsstaðaskóla. Hluti starfsmanna Regnbogans mun starfa í félagsmiðstöðinni.

Hlutverk félagsmiðstöðvarinnar er að styðja við börn í gegnum fjölbreytt tómstundastarf. Megin markmið starfsins er að veita þeim tækifæri til samveru og að stunda heilbrigðar tómstundir undir leiðsögn tómstundaleiðbeinenda. Leiðarljós starfsins er að efla félagsfærni, sjálfsmynd og virkni barna.
Unnið er út frá hugmyndafræði barna- og unglingalýðræðis, hugmyndum og áhugasviði nemenda skólans. Leitað verður eftir röddum barna hvað varðar starfsemi og þær uppákomur sem verða hverju sinni, innra starf og umgjörð. Vonir standa til þess að hægt verði að bjóða upp á starf fyrir nemendur í 5. og 6. bekk síðar.
Til hamingju nemendur með opnun félagsmiðstöðvar!


Til baka
English
Hafðu samband